Lausnir vegna greiðsluvanda

Allir geta lent í erfiðleikum með fjármálin og fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Óvænt atvik geta komið sem breyta upphaflegum forsendum. Ýmis úrræði eru í boði fyrir heimili til að takast á við vandann, mismunandi eftir umfangi hans og aðstæðum hvers og eins.

Mikilvægt er að leita strax aðstoðar áður en vanskil verða veruleg. Skuldarar eru hvattir til að kynna sér lausnir og leita sem fyrst til ráðgjafa HMS eða til Umboðsmanns skuldara ef vandinn er umfangsmikill.

Vissir þú þetta?

  • Ef þú gerir samning um greiðslu vanskila stöðvast innheimtuaðgerðir en lánin bera dráttarvexti á meðan á samningi stendur.​
  • Ef samþykkt er að fresta greiðslum, skuldbreyta vanskilum eða lengja lánstíma er skilmálum lánsins breytt. Til að skilmálum sé breytt þarf lánið að vera í skilum eða samþykkt er að bæta vanskilum við höfuðstól þannig að dráttarvextir reiknast ekki lengur og innheimtuaðgerðir stöðvast.​
  • Það er þinn hagur að nýta greiðslufrestun hóflega því greiðsla eftir greiðslufrestun er hærri en regluleg greiðsla áður en láninu var frestað.​
  • Ef vanskilum er bætt við höfuðstól hækkar lánið sem þeim nemur og regluleg greiðsla eftir að vanskilum er bætt við höfuðstól hækkar einnig.​
  • Lánalenging er eina úrræðið sem getur skilað lægri mánaðarlegri greiðslu en með lánalengingu eykst lánstími og fjöldi gjalddaga sem eftir er þannig að heildargreiðslur lánsins hækka. Skoðaðu áhrif lánalengingar með reiknivélinni Breyting á lánstíma.​
  • Við erum með reiknivélina Bera saman lánakosti sem einfaldar þér að reikna alla lánakosti í boði á markaðnum.​