3. nóvember 2023

Vísitala paraðra viðskipta gefur til kynna að nýjar íbúðir leiði ekki til ofmats á verðþróun íbúða

Stofnframlög
Stofnframlög

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Vísitölu íbúðaverðs er ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Nokkrar aðferðir eru mögulegar til að reikna slíka vístölu þannig að hún gefi sem réttasta mynd af verðþróun. Ein einfaldasta leiðin er sú sem notuð er í vísitölu íbúðaverðs sem HMS gefur út mánaðarlega þar sem seldum eignum er skipt í flokka með sambærilegum eiginleikum og verð í hverjum flokki vegið saman í eina vísitölu. Önnur aðferð er að bera saman endurtekna sölu á sömu eigninni á mismunandi tíma sem er kölluð vísitala paraðra viðskipta. Þriðja aðferðin væri svo að leiðrétta fyrir gæðum hverrar eignar sem er nokkuð flóknari aðferð.

Einn helsti munurinn á vísitölu paraðra viðskipta og hefðbundinni vísitölu HMS  er sá að í fyrri vísitölunni er eðli málsins samkvæmt eru ekki teknar með nýjar eignir, þar sem þær hafa ekki selst áður. Samanburður á þessum tveimur vísitölum getur því gefið vísbendingu um hvort breytt gæði, t.d. aldur eigna, hafi áhrif á metna verðþróun.

HMS hefur reiknað vísitölu paraðra viðskipta með sama hætti og áður hefur verið gert og birt í mánaðarskýrslum. Myndin að neðan sýnir þróun vísitalnanna frá árinu 2019.

Munurinn á þróun vísitalnanna verður skýrari þegar horft er til 12 mánaða breytingar eins og næsta mynd sýnir.

Um mitt ár 2021 mældu báðar vísitölur sambærilega verðþróun en þá skildi á milli og vísitala paraðra viðskipta sýndi minni hækkun. Það gæti verið vísbending um að hlutfall gæðameiri eigna hafi aukist þegar hægði á sölu eigna um mitt ár 2022. Í maí sl. snerist þessi þróun hins vegar við og vísitala paraðra viðskipta sýndi meiri hækkun en hefðbundna vísitalan. Nú er staðan svo að vísitala paraðra viðskipta sýnir 5,6% hækkun síðastliðna 12 mánuði samanborið við 2,6% hækkun á vísitölu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Þó verður að gera þann fyrirvara að vísitala paraðra viðskipta er ónákvæm við mat á gildum í endapunkti og getur því breyst þegar frekari gögn liggja fyrir. Sé horft til síðustu mælinga í samhengi má þó fullyrða að báðar vísitölur sýni sambærilega þróun síðustu 12 mánuði og ekki sé merkjanlegur munur á verðþróun hvort sem nýjum eignum er sleppt eða ekki. Þvert á móti virðist verðhækkun síðustu mánaða frekar drifin áfram af eldri eignum þar sem hefðbundna vísitalan, sem inniheldur nýjar eignir, hefur hækkað minna en vísitala paraðra viðskipta.

Þessar niðurstöður má setja í samhengi við umræðu um áhrif hlutdeildarlána á mælda verðbólgu. Svo virðist sem nýjar eignir hafi frekar hægt á mældum verðhækkunum. Samræmist það því að við veitingu hlutdeildarlána eru viðmið um hámarksverð sem setur því skorður hvaða íbúðir geta fallið undir úrræðið. Þannig gæti ekki fengist hlutdeildarlán til kaupa á dýrri nýrri íbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS