13. febrúar 2024

Tilkynning um breytta stjórnsýsluframkvæmd vegna byggingarleyfisskyldra sjókvía utan netlaga

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynnir hér með um breytta stjórnsýsluframkvæmd vegna veitingar byggingarleyfa fyrir sjókvíar sem teljast mannvirki í skilningu laga um mannvirki nr. 160/2010, og eru utan netlaga. Frá og með 15. febrúar 2024 verður gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur haft til skoðunar að hvaða marki sjókvíar séu byggingarleyfisskyld mannvirki og hvernig framkvæmd við leyfisveitingu hins opinbera vegna sjókvíaeldis hefur verið háttað með tilliti til þess. Það er mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að sjókvíar sem teljast hafa fasta staðsetningu séu byggingarleyfisskyld mannvirki skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010. Þrátt fyrir það hefur framkvæmdin verið sú að rekstrar- og starfsleyfi hafa verið veitt fyrir fiskeldi í sjókvíum þó svo að byggingarleyfis hafi ekki verið aflað fyrir sjókvíar líkt og áskilið er í 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 2.3.1. gr.  í byggingarreglugerð nr. 112/2010, sbr. einnig 6. tölulið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað upp tvo úrskurði í lok árs 2022 þar sem m.a. var fjallað um hvort sjókvíar gætu talist til mannvirkja. Í niðurstöðu nefndarinnar kom eftirfarandi fram:  

Telja verður að botnföst mannvirki í sjó, svo sem fastar fiskeldiskvíar og tengd mannvirki, fóðurprammar og/eða aðstöðuhús á flotkví teljist til mannvirkja skv. 4. gr. laga nr. 132/1999, en mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast til mannvirkja skv. 13. tölul. 3. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Með úrskurðunum var eytt þeirri réttaróvissu sem mögulega hafði ríkt um það hvort sjókvíar teldust byggingarleyfisskyld mannvirki.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir byggingarleyfi vegna mannvirkja sem eru byggingarleyfisskyld samkvæmt lögum um mannvirki og eru utan sveitarfélagamarka. Á það m.a. við um mannvirki á hafi utan netlaga. Stofnunin hefur að undanförnu unnið að því að útfæra ferla við leyfisveitingu vegna umsókna um byggingarleyfi fyrir sjókvíum. Fyrir liggur að sjókvíar eru óhefðbundin mannvirki út frá kröfum í mannvirkjalögum og byggingarreglugerð. Hefðbundnir ferlar eiga illa við og var því nauðsynlegt að móta nýtt verklag við meðferð umsókna.

Auk þeirra breytinga sem hér eru tilkynntar á stjórnsýsluframkvæmd við veitingu byggingarleyfa vegna sjókvía vill Húsnæðis- og mannvirkjastofnun upplýsa um að nú sé unnið að samantekt upplýsinga um sjókvíar sem settar hafa verið niður án þess að byggingarleyfis hafi verið aflað í upphafi. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um málsmeðferðina og verður niðurstaða þar um kynnt opinberlega þegar hún liggur fyrir.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS