16. apríl 2025
27. janúar 2021
Ný skýrsla HMS um stöðu og þróun húsnæðismála árið 2021
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Fólki á leigumarkaði hefur fækkað og framboð íbúða aukist sem hefur þrýst leiguverði niður
- Fólki á leigumarkaði hefur fækkað og framboð íbúða aukist sem hefur þrýst leiguverði niður
- Útlit er fyrir að leiguverð muni halda áfram að lækka á þessu ári
- Heimilum sem fá greiddar húsnæðisbætur fjölgar
Leigumarkaðurinn á Íslandi minnkaði árið 2020 og leiguverð lækkaði. Aftur á móti fjölgaði heimilum sem fá greiddar húsnæðisbætur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stöðu og þróun húsnæðismála árið 2021 sem kynnt var á húsnæðisþingi félagsmálaráðuneytisins og HMS í gær. Útlit er fyrir að leiguverð muni lækka enn frekar á þessu ári.
Í skýrslunni kemur fram að í upphafi ársins 2020 leigðu tæplega 17% fólks á húsnæðismarkaði íbúðir sínar en talan hafði lækkað í tæp 13% síðar sama ár. Helsta ástæðan fyrir samdrætti á leigumarkaði var COVID-19 faraldurinn en eftir að farsóttin náði fótfestu hér á landi lækkuðu vextir verulega og það auðveldaði fólki að færa sig af leigumarkaðnum og yfir í eigið húsnæði. Þannig var tæplega þriðjungur fasteignakaupa á síðasta ári fyrstu kaup og hefur hlutfallið aldrei mælst hærra.
Húsnæðisöryggi hefur aukist og samningsstaða leigjenda batnað
Heimsfaraldurinn hafði líka þær afleiðingar í för með sér að talsvert losnaði um Airbnb-leiguíbúðir og rötuðu þær inn á almenna leigumarkaðnum. Aukið framboð leiguíbúða til langtímaleigu ásamt fækkun fólks á leigumarkaði þýddi að leiguverð tók að lækka á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2020 og mældist lækkun á vísitölu leiguverðs í sjö mánuði á árinu. Þetta hefur einnig þýtt að samningsstaða leigjenda hefur batnað. „Við gætum séð enn frekari lækkun framundan því það tekur tíma fyrir svona breytingar að koma inn í tölurnar,“ sagði Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur hjá HMS, á húsnæðisþinginu í gær. Vaxtalækkanirnar auk skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar muni án efa mynda þrýsting á leigusala að lækka leiguverð enn frekar.
Fleiri heimili fá greiddar húsnæðisbætur vegna versnandi atvinnuástands
Þrátt fyrir að leigumarkaðurinn hafi minnkað á síðasta ári fjölgaði hinsvegar heimilum sem fá greiddar húsnæðisbætur jafnt og þétt. Nemur fjölgunin tæpum 4% á milli ára. Í skýrslu HMS segir að það sé í samræmi við versnandi atvinnuástand að fleiri heimili uppfylli skilyrði um að fá greiddar húsnæðisbætur. Talsvert var um nýjar umsóknir á árinu, en á meðan heimilum sem fá húsnæðisbætur hefur verið að fjölga hefur meðalfjöldi heimilismanna á hverja íbúð hins vegar verið að dragast saman, eða sem nemur um 2% á milli ára. Fækkunina má einkum rekja til lækkunar á meðalfjölda barna á milli ára. Á meðan leiguverð er almennt að lækka á almennum markaði, mælist hækkun á meðalleigufjárhæð þeirra heimila sem fá greiddar húsnæðisbætur eða um 4% á milli áranna 2019 og 2020.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS