31. október 2024
31. október 2024
Ný brunavarnaáætlun Skagafjarðar tekur gildi
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Skagafjörður samþykkti þann 23. október síðastliðinn nýja brunavarnaáætlun sveitarfélagsins til næstu fimm ára og er þetta önnur stafræna brunavarnaáætlun landsins. Brunavarnaáætlunin er nú aðgengileg á vefsíðu viðkomandi sveitarfélags en einnig er hún birt á vef HMS og má nálgast með því að smella á þennan hlekk.
Stafrænar brunavarnaáætlanir eru unnar á einfaldari hátt en áður og munu veita betri yfirsýn yfir stöðu slökkviliða á landsvísu með samræmdum og samanburðarhæfum upplýsingum. Upplýsingarnar sem nýttar eru í áætlanirnar eru unnar í gegnum Brunagátt, sem er miðlæg gátt er HMS rekur fyrir rauntímaupplýsingar um stöðu slökkviliða og eru gögnin nýtt til forskráningar í áætlanirnar. Upplýsingum er viðhaldið í gáttinni og eru þær uppfærðar í samræmi við breytingar.
Brunavarnaáætlanir eru öflugt tæki til að skapa heildstæða yfirsýn yfir starfsemi og ástand slökkviliðs og hversu vel í stakk búið það er að takast á við hættur á sínu svæði í þeim tilgangi að vernda líf og eignir manna.
90 prósent landsmanna með virka brunavarnaáætlun
Á þessu ári hafa einnig verið samþykktar nýjar brunavarnaáætlanir hjá Slökkviliði Akureyrar, Fjarðabyggðar og nú Brunavörnum Skagafjarðar. Hlutfall slökkviliða landsins með virka brunavarnaáætlun er komið upp í 69 prósent og hlutfall landsmanna með virka brunavarnaáætlun er komið upp í 90 prósent og hefur aldrei verið hærra. Í lok árs 2023 voru 83 prósent landsmanna með virka brunavarnaáætlun. Að hafa samþykkta brunavarnaáætlanir er mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúa landsins, þar sem þær lýsa viðbúnaði slökkviliðsins og eiga þar með að tryggja betra öryggi.
Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé nægilega mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað til að ráða við þær hættur sem steðja að í sveitarfélaginu. Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur samþykki HMS og viðkomandi sveitarstjórnar.
HMS óskar Brunavörnum Skagafjarðar og íbúum sveitarfélagsins til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS