23. desember 2022

Mánaðarskýrsla hagdeildar fyrir desember 2022

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Nýj­ar íbúð­ir í ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins selj­ast hægt

Það sætir tíðundum að í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur hlutdeild nýrra íbúða í sölutölum lækkað skarpt undanfarna mánuði þrátt fyrir að framboð nýrra íbúða til sölu hafi aukist meira en framboð annarra íbúða. Mögulega er það vísbending um að dregið hafi meira úr eftirspurn í nágrannasveitarfélögunum en á höfuðborgarsvæðinu.

  • Á landinu öllu eru nú 2.392 íbúðir til sölu en þær voru 2.145 í byrjun nóvember. Þar af eru 1.429 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og hefur þeim fjölgað um 112 frá því í byrjun nóvember.
  • Á höfuðborgarsvæðinu voru útgefnir kaupsamningar í október 382 talsins miðað við árstíðaleiðréttar tölur og hafa þeir ekki verið færri síðan 2013. Samdrátturinn hefur þó verið enn hraðari í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins undanfarið en þar voru útgefnir samningar 96 í október og 92 í september en til samanburðar voru þeir 151 í ágúst.
  • Á höfuðborgarsvæðinu seldust 19,7% íbúða yfir ásettu verði í nóvember samanborið við 24,3% í október en þegar mest var, í apríl síðastliðnum, seldust ríflega 65% íbúða yfir ásettu verði.
  • Áfram dregur úr tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu miðað við vísitölu íbúðaverðs og er hún komin niður í 20,3% en fór mest í 25,5% í júlí. Ef miðað er við vísitölu paraðra viðskipta hefur hins vegar dregið mun hraðar úr íbúðaverðshækkunum og er 12 mánaða hækkun hennar komin niður í 13%.
  • Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,0% á milli mánaða í nóvember miðað við vísitölu leiguverðs. Tólf mánaða hækkun hennar mælist 9,4% sem er jafn mikið og verðbólga mældist í nóvember sem þýðir að raunverð leigu hefur staðið í stað á milli ára þrátt fyrir einhverja hækkun síðan í júlí.

Verð­tryggð­ir vext­ir mögu­lega orðn­ir hag­kvæm­ari en óverð­tryggð­ir

Undanfarin ár hafa óverðtryggð íbúðalán verið hagkvæmari en verðtryggð eða allt frá því í byrjun árs 2019. Það sést á myndinni hér að neðan þegar ljósgræna línan var þá yfir þeirri rauðu. Verðtryggt lán telst hagkvæmara en óverðtryggt lán ef vextir og verðbólga eru með þeim hætti að ef greitt væri aukalega inná lánið þannig að heildargreiðslubyrði væri eins og um óverðtryggt lán væri að ræða þá yrði það fyrr endurgreitt að fullu. Verðtryggð lán geta verið hagkvæmari þrátt fyrir að heildarupphæðin sem greidd er til baka sé hærri enda eru verðtryggð lán greidd hægar til baka á fyrri hluta lánstímans og því eðlilegt að greitt sé fyrir það.

Ómögulegt er að vita fyrirfram hvor kosturinn sé hagkvæmari því það fer eftir framtíðarþróun verðbólgunnar. Gangi verðbólguspá Seðlabankans eftir og sé gengið út frá því að vextir á húsnæðislánum haldist óbreyttir þá borgar sig nú frekar að taka verðtryggt lán en óverðtryggt og hefur sú verið raunin frá því í júní síðastliðnum. Hins vegar eru óverðtryggð lán enn hagkvæmari ef verðbólga á eftir að hjaðna hægar en í spánni.

Þörf fyr­ir hús­næð­is­bæt­ur tíma­bund­in hjá flest­um

Talsverð hreyfing er á húsnæðisbótaþegum. Stór hluti þeirra sem þiggja húsnæðisbætur gera það einungis tímabundið. Af þeim 18.100 sem þáðu bætur einhvern tímann á árinu 2017 voru einungis 8.300 sem þáðu einnig bætur á þessu ári eða um 46%. Í ljósi þess að fyrsti hópurinn inniheldur ekki aðeins þá sem þáðu fyrst bætur 2017 heldur einnig þá sem höfðu fengið áður bætur þá vekur athygli að það fækkar nærri jafn hratt í þeim hópi á milli ára eins og hjá þeim sem hófu síðar að þiggja bætur. Til lengri tíma litið virðast flestir því annað hvort fara af leigumarkaði eða tekjur þeirra aukast þannig að fullnægja ekki lengur skilyrðum fyrir húsnæðisbætur. Það bendi til þess að þörf flestra fyrir húsnæðisbætur sé einungis tímabundin.

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS