22. apríl 2025
31. maí 2024
Fyrirtækjum fjölgar minna í byggingariðnaði milli ára
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Fleiri fyrirtæki störfuðu í byggingariðnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra, samkvæmt tölum sem HMS hefur fengið frá Hagstofu um nýskráningar og gjaldþrot í greininni. Hins vegar er fjölgunin minni en hún var á milli fyrstu ársfjórðunga 2022 og 2023.
Færri gjaldþrot og færri nýskráningar
Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs urðu 96 fyrirtæki í byggingarstarfsemi gjaldþrota, samanborið við 103 fyrirtæki í fyrra. Gjaldþrotin eru mörg í sögulegu samhengi, en leita þarf aftur til ársins 2011 til að finna sambærilegar tölur fyrir gjaldþrot á fyrsta ársfjórðungi og á árunum 2023 og 2024.
Eins fækkaði nýskráningum á milli ára, en 131 fyrirtæki í greininni voru nýskráð á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við 166 á sama tímabili í fyrra. Nýskráningar umfram gjaldþrot voru því 35 á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, miðað við 63 á sama tíma í fyrra.
Fjölgun fyrirtækja bendir til þess að töluverð virkni sé enn í greininni. Líkt og HMS hefur áður bent á voru fleiri starfandi í byggingariðnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs heldur en á sama tímabili í fyrra, þrátt fyrir að umfang íbuðauppbyggingar hefur dregist saman á tímabilinu. Þessi þróun gefur vísbendingar um að byggingaraðilar séu í meira mæli að sinna öðrum uppbyggingarverkefnum en íbúðauppbyggingu, líkt og uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og viðhaldi á gömlum húsum.
Myndirnar hér að ofan sýna nýskráningar og gjaldþrot byggingarfyrirtækja á fyrstu ársfjórðungum annars vegar og fyrir allt árið á tímabilinu 2008 til 2024. Frá árinu 2013 hafa nýskráningar verið fleiri en gjaldþrot sem bendir til þess að fyrirtækjum hafi fjölgað í greininni ár frá ári.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS