22. febrúar 2024

Fjöldi íbúða í byggingu í Fjarðabyggð er ekki nægur til að mæta væntri fólksfjölgun næstu árin

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Spáð er að íbúum í Fjarðabyggð fjölgi um rúmlega 520 eða um tæp 10% á næstu 5 árum
  • Fjöldi íbúða í byggingu ekki nægur til þess að mæta fólksfjölgun
  • Fjarðabyggð ætlar að skapa skilyrði svo mögulegt verði að byggja 298 íbúðir á næstu 5 árum

Fjarðabyggð áætlar að íbúum í sveitarfélaginu fjölgi um 520 manns á næstu fimm árum og yfir þúsund manns á næstu tíu árum. Fjöldi íbúða í byggingu í sveitarfélaginu er hins vegar langt frá því að mæta áætlaðri íbúðaþörf. Þetta kemur fram í endurskoðaðri húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024.

Húsnæðisáætlunin byggir á mannfjöldaspá sem áætlar að íbúar sveitarfélagsins verði um 6.500 talsins árið 2033. Verði sú raunin mun íbúum þar fjölga um 20,4 prósent á tíu árum, eða um 100 á hverju ári. Líkt og myndin hér að neðan sýnir hefur íbúafjölgun síðustu ára í sveitarfélaginu verið tiltölulega hröð, en frá árinu 2021 hefur íbúum þar fjölgað um tæp 3,8 prósent.

Miðað við áætlaða fjölgun íbúa í sveitarfélaginu áætlar Fjarðabyggð að þörf sé fyrir um 100 íbúðir í ár, 298 íbúðir næstu 5 ár og 569 íbúðir næstu 10 ár.

Myndin hér að neðan sýnir árlega áætaða íbúðaþörf, auk uppsafnaðrar íbúðaþarfar samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélagsins síðustu árin. Húsnæðisþörfin hefur aukist með hverri endurskoðun húsnæðisáætlunar, en í fyrri áætlunum var hún metin minni en 40 íbúðir á hverju ári á tímabilinu 2023-2032.

Of fáar íbúð­ir í bygg­ingu, en nóg af lóð­um

Í íbúðatalningu HMS voru 42 íbúðir í byggingu í september 2023 sem var fjölgun um nærri 12% frá talningu í mars sama ár þar sem taldar voru 37 íbúðir í byggingu. Hins vegar er fjöldinn langt frá því að mæta áætlaðri þörf fyrir um 60 nýjar íbúðir á hverju ári næstu árin.

Líkt og myndin hér að neðan sýnir voru 16 af þeim 42 íbúðum sem voru í byggingu við síðustu íbúðatalningu á framvindustigi 6 og því nær fullbúnar. Færri íbúðir voru þá á fyrstu framvindustigum.

Meginmarkmið Fjarðabyggðar í húsnæðismálum er að tryggja stöðugleika og öryggi í húsnæðismálum íbúa sveitarfélagsins eins og kostur er. Fjarðabyggð vill leitast við að tryggja öllum íbúum jafnan aðgang að þjónustu sveitarfélagsins óháð búsetu þeirra og aðstöðu til að þiggja hana m.a. með bættum samgöngum eða með því að tryggja þjónustuna sem næst íbúum.

Á næstu 5 árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að  435 íbúðir svo lóðaframboð mæti vel áætlaðri íbúðaþörf. Áætlað lóðaframboð má sjá á mynd hér að neðan, þar sem yfir 250 byggingarhæfar lóðir voru til staðar í sveitarfélaginu árið 2023. Til viðbótar eru svo 185 lóðir í samþykktu deiliskipulagi fyrir árin 2024-2026.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS