21. ágúst 2020

Eftirspurn á fasteignamarkaði eykst

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Ný könnun[i] HMS um húsnæðismarkaðinn hér á landi leiðir í ljós ýmsar viðhorfsbreytingar á undanförnum mánuðum. Það má leiða að því líkum að lægri vextir og stuðningur við fyrstu kaupendur spili þar veigamikið hlutverk. 

Ný könnun[i] HMS um húsnæðismarkaðinn hér á landi leiðir í ljós ýmsar viðhorfsbreytingar á undanförnum mánuðum. Það má leiða að því líkum að lægri vextir og stuðningur við fyrstu kaupendur spili þar veigamikið hlutverk. 

Fleiri í fasteignahugleiðingum nú en í byrjun árs

Það virðist vera mikið líf á fasteignamarkaðnum um þessar mundir og talsvert fleiri hafa í hyggju að kaupa fasteign nú en í upphafi árs. Vextir hafa lækkað mikið að undanförnu sem hefur orðið til þess að auka eftirspurn á húsnæðismarkaði. Niðurstöður könnunarinnar sýna glögglega þessa auknu eftirspurn og breytt viðhorf til fasteignakaupa.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar í upphafi árs þá voru um 7% aðspurðra líklegir til að kaupa sér fasteign á næstu 6 mánuðum en nú hefur þetta hlutfall hækkað upp í 10% sé litið á heildina. Enn meiri hækkanir má sjá ef einungis er litið til þeirra sem eru á leigumarkaði eða búa í foreldrahúsum. Af þeim sem búa í foreldrahúsum voru ekki nema 12% í fasteignahugleiðingum í upphafi árs en hlutfallið hefur nú hækkað upp í 26%. Sömu sögu má segja um aðila á leigumarkaði en þar hefur hlutfallið hækkað úr 5% upp í 10%.

Hlutfallsleg fækkun á leigumarkaði

Athygli vekur að í síðustu könnun og í þeirri sem framkvæmd var í apríl mælist hlutfallsleg fækkun svarenda sem eru á leigumarkaði. Í byrjun árs mældust þeir um 15,1% en í apríl 12,9% og nú um 12,7% og hefur hlutfallið ekki mælst svo lágt síðan HMS hóf að láta framkvæma reglubundnar kannanir af þessu tagi í september 2017. Til samanburðar var meðaltal hlutfalls leigjenda í mælingum ársins 2019 um 16,8%.

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að þeir sem búa í leiguhúsnæði eða foreldrahúsum séu töluvert bjartsýnni á fasteignakaup á næstu misserum en í fyrri mælingum. Í upphafi árs voru um 18% aðspurðra líklegir til að vera á leigumarkaði eftir 6 mánuði, en nú mælist þetta hlutfall 13% og hefur ekki mælst lægra síðan mælingar HMS hófust árið 2017.   

Það má einnig sjá töluverðar breytingar á búsetuáformum námsmanna í skýrslunni. Í upphafi árs var um þriðjungur námsmanna sem áætlaði að vera á leigumarkaði eftir 6 mánuði en nú hefur hlutfallið hækkað upp í helming. Það bendir til þess að fleiri kjósi að vera á leigumarkaði en búa í foreldrahúsum þar sem breytingin endurspeglast ekki í samsvarandi aukningu námsmanna í fasteignahugleiðingum. Líklega má rekja aukninguna til lægra leiguverðs og aukins framboðs á hagstæðara leiguhúsnæði en sveiflur geta verið nokkrar á milli mælinga.

Ítarlega er farið yfir þróun á fasteigna- og leigumarkaði í mánaðarlegri skýrslu HMS, skýrsluna fyrir ágústmánuð má finna hér.

 

[i] Viðhorfskönnun meðal könnunarhóps Zenter rannsókna var gerð dagana 16.júlí-9.ágúst 2020. Úrtakið taldi 2300 einstaklinga 18 ára og eldri og var svarhlutfallið 48,8%.

 

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS