01
feb.

Skortur á íbúðarhúsnæði leiðir til óleyfisbúsetu

  1. Skortur á leiguhúsnæði og há leiga helstu ástæðurnar fyrir því að fólk býr í húsnæði sem skilgreint er fyrir atvinnustarfsemi
  2. Óleyfishúsnæðið er hvorki hannað né byggt með búsetu í huga og uppfyllir því ekki allar þær öryggiskröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis
  3. Útlit er fyrir að óleyfisbúseta muni aukast á næstu misserum
  4. Vinnuhópur leggur til að heimila tímabundið aðsetursskráningar í skilgreindu atvinnuhúsnæði sem mætir ákveðnum kröfum
  5. Vinnuhópurinn leggur einnig til að takmarka skráningar lögheimilis í íbúðarhúsnæði og að lögfest verði skráningarskylda leigusamninga í húsnæðisgrunn HMS
  6. Frekari tillögur eru í vinnslu um úrbætur í málaflokknum og verður þeim skilað til ráðherra síðar í þessum mánuði

Áætlað er að um 5.000-7.000 einstaklingar búi nú í óleyfisíbúðum, þ.e. í húsnæði sem skiplagt er undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vinnuhóps um óleyfisbúsetu og fjöldaskráningar í íbúðarhúsnæði. Helstu ástæðurnar fyrir þessum fjölda íbúa í óleyfisíbúðum eru líklega skortur á leiguhúsnæði og há leiga. Dæmi eru um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu en hluti erlends verkafólks, sem dvelst tímabundið á landinu vegna vinnu, kýs að búa tímabundið í eins ódýru húsnæði og mögulegt er.

Áætlað er að fjöldi íbúða sem nýttar eru í þessu skyni geti verið á bilinu 1.500-2.000. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall íbúðanna myndi teljast viðunandi út frá öryggi og heilsu fólks en ljóst er að umrætt húsnæði var hvorki hannað né byggt með búsetu í huga og kröfur um öryggi þar af leiðandi ekki þær sömu og gerðar eru til íbúðarhúsnæðis. Sem dæmi má nefna að ólíklegt þykir að umrætt húsnæði uppfylli kröfur um eldvarnir.

Þess má auk þess geta að vinna við mótun tillagna um frekari reglur um brunavarnir í íbúðarhúsnæði í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg miðast vel. Gert er ráð fyrir tillögunum verði skilað til ráðherra síðar í þessum mánuði.

Meiri líkur en minni á að óleyfisbúseta muni aukast á næstu misserum

Ekki er heimilt að skrá búsetu í atvinnuhúsnæði nema í undantekningartilvikum. Þar af leiðandi liggja ekki fyrir upplýsingar um búsetu þeirra sem búa í óleyfisíbúðum. Sú óvissa skapar hættu þegar vá steðjar að, líkt og eldsvoði eða náttúruhamfarir, og gerir viðbragðsaðilum erfitt fyrir í björgunarstörfum. Í ljósi samdráttar í byggingu nýrra íbúða og að til staðar er óuppfyllt íbúðaþörf verður ekki séð að draga muni úr þessum vanda á næstunni. Þvert á móti þykja meiri líkur en minni á því að óleyfisbúseta komi til með að aukast á næstu misserum.

Ljóst er að leita þarf leiða til þess að ná fram með einhverjum hætti skráningu á búsetu einstaklinga í óleyfisíbúðum. Í dag er framkvæmdin sú að viðkomandi eru skráðir annað hvort með ótilgreint lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi eða hreinlega ranglega skráðir með lögheimili annars staðar. Vinnuhópurinn leggur fram þá tillögu að horfa til þess að heimila tímabundið aðsetursskráningar í skilgreindu atvinnuhúsnæði sem mætir ákveðnum kröfum. Með því er einstaklingur með skráð lögheimili ótilgreint í viðkomandi sveitarfélagi en aðsetur í viðkomandi atvinnuhúsnæði. Aðsetursskráningin yrði hugsuð sem tímabundin búseta til þess að mæta því ástandi sem nú ríkir.

Vinnuhópurinn leggur einnig til að endurskoðaðar verði heimildir til fjöldaskráninga lögheimilis í íbúðarhúsnæði. Tilgangurinn væri að koma í veg fyrir að margir séu skráðir í sömu íbúð án þess að búa þar í raun og fá sem réttasta mynd af raunverulegri búsetu, m.a. fyrir viðbragðsaðila.

Skylda verði að skrá leigusamninga í húsnæðisgrunn HMS

Þá er lagt til að lögfest verði skráningarskylda leigusamninga í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Slík skráning yrði til þess að fá betri yfirsýn yfir leigumarkaðinn í heild sinni slík skylda er ekki til staðar í dag. Óaðgengilegar og óáreiðanlegar upplýsingar um leigumarkaðinn gera það að verkum að erfiðlega gengur að mæta þeim áskorunum sem þar er að finna með markvissum hætti. Þar með talið áskorunum líkt og hvort leiguhúsnæði uppfylli kröfur um brunavarnir, hvort eðli leigunnar er þannig að gera ætti auknar kröfur um brunavarnir, hversu margir eru búsettir í leiguíbúð o.s.frv. Stórt og mikilvægt skref yrði stigið í rétta átt til að bæta réttarvernd og öryggi leigjenda með skráningarskyldu leigusamninga og er fyrirhugað að félags- og barnamálaráðherra leggi fram frumvarp þar um á yfirstandandi þingi.

Tímabundinn samráðsvettvangur um brunavarnir skilar senn niðurstöðum sínum

Í kjölfar skýrslu sem HMS gaf út í desember um brunann á Bræðraborgarstíg síðasta sumar fól Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, HMS að setja á fót tímabundinn samráðsvettvang um brunavarnir í íbúðarhúsnæði sem mun móta, og skila til ráðherra, tillögum um úrbætur. Sú vinna miðast vel og gert er ráð fyrir tillögurnar liggi fyrir síðar í þessum mánuði.


---

Um vinnuhópinn:

Í apríl 2019 kynnti ríkisstjórnin að unnið skyldi að innleiðingu fjörutíu og fjögurra tillagna um umbætur á húsnæðismarkaði. Ákvörðunin var hluti af aðgerðum stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Eitt verkefnanna sneri að óleyfisbúsetu – að afla upplýsinga um fjölda óskráðra íbúða og leggja fram tillögur um hvernig hægt væri að hvetja eigendur íbúðanna til að skrá þær.

Ábyrgð verkefnisins var á hendi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem jafnframt var falin eftirfylgni með tillögunum í heild. Undir stjórn HMS var settur á fót vinnuhópur til að meta umfang óskráðra íbúða út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg 1 í júní 2020 var hópnum auk þess falið að fara yfir reglur um skráningu lögheimilis og aðseturs með tilliti til óleyfisbúsetu og fjöldaskráninga í íbúðum og meta hvaða lærdóm megi draga af þessum sorglega atburði í því samhengi. Alls voru 73 einstaklingar með skráð lögheimili að Bræðraborgarstíg 1.

Vinnuhópinn skipuðu Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, fulltrúi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Birta Austmann Bjarnadóttir, deildarstjóri þjónustudeildar, fulltrúi Þjóðskrár Íslands, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, sviðsstjóri félags- og þróunarsviðs Eflingar, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir aðstoðarforstjóri, fulltrúi HMS. Anna Guðmunda stýrði jafnframt vinnu hópsins. Verkefnastjóri var Kristinn Tryggvi Gunnarsson, breytingastjóri HMS.

 

 

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Alla virka daga frá kl. 09:00 – 15:30

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480