13
maí

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir maí 2022

  • Rúmlega þúsund íbúðir voru auglýstar til sölu á landinu öllu í byrjun aprílmánaðar sem er mjög svipað og verið hefur frá því í byrjun febrúar.  
  • Meðalsölutími íbúða í mars var 35,8 dagar á höfuðborgarsvæðinu og hefur aldrei verið styttri. í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var einnig um met að ræða þar sem meðalsölutíminn var 44,1 dagur. 
  • Útgefnir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru 923 talsins á höfuðborgarsvæðinu í mars sl. Þrátt fyrir að kaupsamningum hafi fjölgað undanfarna tvo mánuði þá hefur þeim farið fækkandi ef horft er á árstíðaleiðréttan fjölda. Lítið framboð íbúða til sölu útskýrir þennan samdrátt líklega að mestu.  
  • Samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta mældist tólf mánaða hækkun íbúðaverðs í mars 22,3% á landinu öllu. 
  • Vaxtaleiðrétt vísitala söluverðs á föstu verðlagi, sem gefur til kynna hvernig greiðslubyrði lána við íbúðarkaup, fór nú í mars yfir það sem hún hafði verið í janúar 2019 ef miðað er við óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum vegna íbúðakaupa á höfuðborgarsvæðinu. 
  • Fjöldi nýskráðra fyrirtækja í byggingariðnaði hefur aldrei verið jafn mikill og í mars og apríl sl. eða um 50 hvorn mánuð fyrir sig miðað við árstíðaleiðréttar tölur. 

Yfir helmingur íbúða seldar yfir ásettu verði 

Mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á sama tíma og framboð er af skornum skammti hefur leitt til þess að oft er bitist um íbúðir til sölu. Í mars seldist í fyrsta sinn yfir helmingur íbúða yfir ásettu verði (51,2%) en í febrúar hafði hlutfallið í fyrsta sinn farið yfir 40% (46,4%). Sérstaklega virðist vera mikil ásókn í íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu en í mars seldust 61,2% íbúða yfir ásettu verði miðað við þriggja mánaða meðaltal. 

Greiðslubyrði hækkar um þriðjung 

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um 1 prósentustig nú í byrjun maí og eru þeir því nú 3,75%. Viðbúið er að vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækki í kjölfarið. Peningastefnunefnd hefur jafnframt gefið út að líklega verði þörf á að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum sem gefur til kynna að von sé á enn frekari stýrivaxtahækkunum. 

Mánaðarleg greiðslubyrði óverðtryggðra lána  gæti orðið að lágmarki 49.700 kr. á hverjar 10 m.kr. sem eru teknar að láni þegar bankarnir hafa brugðist við stýrivaxtahækkunum en hún er í dag að lágmarki 45.300 kr. Þegar stýrivextir voru í lágmarki fyrir ríflega ári síðan var greiðslubyrðin um 37.300 kr. á hverjar 10 m.kr. skuldaðar þannig að líklega mun greiðslubyrði vera um þriðjungi hærri í næsta mánuði en hún var fyrir ári. 

Talsverð fjölgun íbúða í byggingu  

Í mars síðastliðnum voru 7.260 íbúðir í byggingu samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins (SI) og HMS sem er um 21,3% aukning frá síðustu talningu í september 2021 þegar 5.984 íbúðir voru í byggingu. Fjölgunin er mest á fyrri framvindustigum. 

 

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér: 

https://hms.is/media/11769/hms_manadarskyrsla_mai2022.pdf 

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Mánudaga til fimmtudag: 09:00 - 16:00
Föstudaga frá kl: 09:00 - 14:00

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480