11
jún.

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir júní 2020

Áfram hóflegar hækkanir á fasteigna- og leiguverði

  • Áfram mælast hóflegar verðhækkanir á íbúðarhúsnæði miðað við 12 mánaða breytingu vísitölu paraðra viðskipta í apríl en íbúðaverð hefur ekki haldið í við launaþróun á sama tímabili.
  • Meðalsölutími nýbygginga á höfuðborgasvæðinu lengist á ný eftir að hafa verið nánast sá sami og sölutími eldri íbúða í upphafi árs.
  • Íbúða- og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haldið í við launaþróun síðustu 12 mánaða. 
  • Leiguverð á landinu öllu hækkaði á milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu var 12 mánaða hækkun leiguverðs meiri en hún hefur verið síðan í júlí í fyrra en í nágrannasveitarfélögum þess lækkaði leiguverð að raunvirði.
  • Þinglýstum leigusamningum hefur fækkað á milli ára miðað við 12 mánaða breytingar. 
  • Meðalleigufjárhæð íbúðarhúsnæðis, miðað við nýja leigusamninga, lækkaði að raunvirði á höfuðborgarsvæðinu á milli mars og apríl en hækkaði í nágrannasveitarfélögum.
  • Bankarnir leiða áfram vaxtalækkanir íbúðalána en vaxtakjör lífeyrissjóðanna af verðtryggðum íbúðalánum hafa tekið litlum sem engum breytingum.
  • Mikil aukning var í óverðtryggðum útlánum hjá bönkunum en hjá þeim var aprílmánuður stærsti einstaki mánuðurinn hingað til í hreinum nýjum óverðtryggðum íbúðalánum.

Fasteignamarkaður

Á milli ára hækkaði söluverð á fermetra nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu um 8% en fermetraverð eldri íbúða hækkaði talsvert minna eða um 2,5%. Mesta verðbreytingu var að merkja á eldri íbúðum á landsbyggðinni en þar nam hækkunin rúmum 10%. Þróun á meðalstærð nýbygginga kann að útskýra að einhverju leyti hvers vegna fermetraverð nýrra íbúða hefur hækkað síðustu ár eins og raun ber vitni. Meðalstærð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur minnkað úr 120 fm í tæplega 100 fm á undanförnum árum. Sömu sögu er að segja af meðalstærð nýbyggðra íbúða á landsbyggðinni en þar er meðalstærð þeirra nú tæplega 80 fm. Minni breytingar eru á meðalstærð eldri íbúða.

Vísitala paraðra viðskipta leiðir í ljós áframhaldandi hóflegar verðhækkanir íbúðarhúsnæðis í apríl. Íbúðaverð hækkaði um 3,4% á höfuðborgarsvæðinu, 1,4% í nágrannasveitarfélögum og 2,5% annars staðar á landinu.

Meðalsölutími nýbygginga virðist vera að lengjast á ný. Í því samhengi er vert að taka fram að í upphafi árs var meðalsölutími nýrra íbúða nánast sá sami og eldri íbúða á höfuðborgarsvæðinu, en nýjustu gögn benda til þess að farið sé að skilja á milli á nýjan leik.

Í apríl lækkaði tólf mánaða breyting kaupverðs íbúðarhúsnæðis, nýrra íbúða sem eldri, á höfuðborgarsvæðinu um 5,5% í hlutfalli við þróun launavísitölu. Á sama tíma lækkaði vísitala paraðra viðskipta á höfuðborgarsvæðinu um 3,5% miðað við laun. Í sama mánuði hafði kaupverð íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hækkað um nærri 3% umfram laun á ársgrundvelli. Örlitla hækkun kaupverðs gætti á landsbyggðinni á sama tíma en þar nam hækkunin rúmlega einu prósenti.

 

Leigumarkaður

Leiguverð hækkaði um 4,3% að nafnvirði á milli ára miðað við vísitölu leiguverðs eða 2% að raunvirði þegar allt landið er skoðað. Á milli mars- og aprílmánaðar hækkaði leiguverð mest á höfuðborgarsvæðinu en raunhækkunin nam rúmlega einu prósenti. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði leiguverð um 1,4% að raunvirði og um 2% á landsbyggðinni á milli mánaða.

Þinglýstum leigusamningum fækkaði á milli ára miðað við sama tíma í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu nam fækkunin 11,5% og í nágrenni þess tæpum 7% í aprílmánuði. Á landsbyggðinni var jafn mörgum leigusamningum þinglýst í apríl og á sama tíma í fyrra.

Meðalleigufjárhæð íbúðarhúsnæðis, miðað við nýja leigusamninga, lækkaði um 1% að raunvirði á höfuðborgarsvæðinu á milli mars og apríl. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var aftur á móti raunhækkun sem nam rúmum 2% og á landsbyggðinni hélt leigufjárhæðin nokkurn veginn í við verðlag. Meðalleigufjárhæð lækkaði á landsbyggðinni en talsverð hækkun á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Þess má geta að meðalstærð leiguíbúða hefur farið lækkandi á höfuðborgarsvæðinu.

 

Lánamarkaður

Vaxtakjör sem lífeyrissjóðirnir bjóða upp á af verðtryggðum íbúðalánum hafa tekið litlum sem engum breytingum það sem af er þessu ári. Vaxtakjör bankanna  á slíkum lánum hafa hins vegar lækkað um allt að 1,2 prósentustig frá áramótum og að meðaltali um 0,8 prósentur. Hagstæðustu vaxtakjörin eru enn innan lífeyrissjóðanna en bilið þar á milli hefur þó ekki mælst jafn lítið og nú síðan um mitt ár 2015.

Mikill samdráttur varð í veitingu nýrra útlána innan lífeyrissjóðanna í apríl síðastliðnum, en hrein ný íbúðalán þeirra drógust saman um tæp 87% frá mánuðinum á undan. Einungis voru veitt hrein ný verðtryggð lán innan lífeyrissjóðanna að upphæð 149 milljónum króna í apríl og óverðtryggð lán að upphæð ríflega 770 milljónum króna. Var aprílmánuður síðastliðinn þar með sá umsvifaminnsti innan lífeyrissjóðanna frá því í október 2015.

Apríl síðastliðinn var umsvifamesti einstaki mánuðurinn hingað til  í hreinum nýjum óverðtryggðum íbúðalánum hjá bönkunum. Alls voru í þeim mánuði lánuð út ný óverðtryggð íbúðalán að frádregnum uppgreiðslum á breytilegum vöxtum að upphæð ríflega 17,4 ma. kr. innan bankanna. Hrein ný óverðtryggð útlán bankanna á föstum vöxtum til annað hvort þriggja eða fjögurra ára voru hins vegar neikvæð í apríl um tæpa þrjá milljarða króna. Uppgreiðslur verðtryggðra lána voru einnig  á sama tíma um tveimur milljörðum króna umfram ný útlán heimilanna hjá bönkunum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.

 

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Alla virka daga frá kl. 09:00 – 15:30

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480