09
júl.

Mánaðarskýrsla hagdeildar fyrir júlí 2021

Áfram mikil eftirspurn á fasteignamarkaði

· Helstu tölur sýna mikinn eftirspurnarþrýsting á fasteignamarkaði og mikill fjöldi kaupenda sé að sækjast eftir eignum

· Sölutími íbúða hélt áfram að styttast í maí. Meðaltími eigna á söluskrá á höfuðborgarsvæðinu var 38 dagar en 78 dagar á landsbyggðinni.

· Fasteignaverð hækkaði um allt land en hækkanirnar voru þó mestar á sérbýli

· Hækkun fasteignaverðs er umfram aukningu kaupmáttar

· Auglýstum eignum fækkaði og hafa auglýstar eignir ekki verið færri síðan haustið 2017

· Ný útlán hjá bönkunum til húsnæðiskaupa hafa aukist hratt síðustu tólf mánuði og námu 393 milljörðum króna, samkvæmt nýjustu mælingum.

· Hlutdeild óverðtryggðra lána eykst áfram en þau fóru úr 46% og upp í 54,1% allra húsnæðislána á milli apríl og maí á þessu ári. Enn er mikið um endurfjármögnun verðtryggðra lána með óverðtryggðum.

· Í fyrsta skipti í 9 mánuði hækkar leiguverð á höfuðborgarsvæðinu og mælist hækkunin 0,6% umfram meðal leiguverð síðustu 12 mánaða

 

 

Mikil eftirspurn mælist nú eftir húsnæði og hefur það sett mark sitt á helstu hagvísa á fasteignamarkaði. Hækkanir á fasteignaverði eru áfram meiri en sem nemur aukningu kaupmáttar undangengna mánuði. Svokölluð vísitala paraðra viðskipta hefur hækkað um 18,3% fyrir sérbýli og 17,1% fyrir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu undangengna tólf mánuði. Á landsbyggðinni hækkaði sérbýli um 14,5% og fjölbýli um 4,6%.

Þá var sölutími íbúða styttri um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu er sölutími nú að jafnaði 38 dagar miðað við meðaltal síðustu þriggja mánaða. Á landsbyggðinni er meðalsölutíminn lengri, eða 78 dagar. Talað er um að ef meðalsölutími fasteigna er styttri en 3 mánuðir sé það merki um seljendamarkað en þegar hann er 6 mánuðir eða meira er talað um kaupendamarkað. Þessar tölur benda því til þess að nú sé sterkur seljandamarkaður á höfuðborgarsvæðinu.

32% íbúða fara á söluverði umfram ásett verð

Þetta sést einnig nokkuð vel á hlutfalli íbúða sem selst yfir ásettu verði en 32% seldra íbúða á öllu landinu seldust yfir auglýstu verði á öllu landinu í maí síðastliðinn. Þetta er methlutfall frá upphafi mælinga í janúar árið 2013. Þetta hlutfall var hæst fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu eða um 42,7% á meðan 37,2% fjölbýla seldust yfir ásettu verði. Á landsbyggðinni voru sömu tölur 8% og 17%, fyrir fjölbýli annars vegar og sérbýli hins vegar.

Leiguverð hækkar í fyrsta skipti í níu mánuði

Slaki á leigumarkaði olli því að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði tímabundið undanfarna mánuði. Skýringin kann að vera sú að heimsfaraldurinn fækkaði komum ferðamanna til landsins auk þess sem margt ungt fólk flutti í foreldrahús. Hins vegar mælist 12 mánaða breyting leiguverðs nú jákvæð og hækkaði leiguverð um 0,6% í síðasta mánuði. Í nágrenni Reykjavíkur hefur leiguverð staðið í stað síðustu 12 mánuði en það hækkaði um 6,5% á landsbyggðinni.

 

Hrein ný útlán bankanna og hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána halda áfram að aukast

Hlutdeild óverðtryggðra lána af heildaríbúðalánum heldur áfram að stækka þar sem hún jókst úr 46%, í apríl, í 54,1% mánuði síðar. Enn er mikið um endurfjármögnun verðtryggðra lána með óverðtryggðum. Stýrivaxtalækkanir Seðlabankans hafa sett mark sitt á vaxtastig fastra og breytilegra vaxta á óverðtryggðum íbúðalánum. Hrein ný útlán bankanna hafa aukist hratt en undangengna 12 mánuði lánuðu þeir 393 milljarða króna til húsnæðiskaupa.

Sem kunnug er þá hækkaði hækkaði Seðlabankinn í maí á þessu ári stýrivexti um 0,25% og er þess almennt vænst að við taki tímabil vaxtahækkanna þar sem vextir eru í sögulegum

lægðum sem stendur. Bankarnir hafa sem áður segir þegar brugðist við með hækkun vaxta óverðtryggðra íbúðalána.

 

Mánaðarskýrsluna má nálgast í heild sinni hér: https://www.hms.is/media/9593/manadarskyrsla_juli.pdf

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Arnalds, Framkvæmdarstjóri stafrænna lausna HMS, í s: 666-9222

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Alla virka daga frá kl. 09:00 – 15:30

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480