03
des.

Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi

Með breytingu á byggingareglugerð er stigið fyrsta skrefið í að einfalda leyfisveitingar vegna framkvæmda:

 • Nýtt flokkunarkerfi þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem draga mun úr flækjustigi í byggingariðnaðinum.
 • Eftirlit með stórum og flóknum byggingum verður aukið en áfram þarf byggingarleyfi vegna byggingar hefðbundins íbúðarhúsnæðis og uppfylla ríkar kröfur sem gerðar eru til þess.
 • OECD gagnrýndi kerfið við leyfisveitingar í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði sem kynnt var á síðasta ári. Reglugerðin er viðbrögð við þeirri gagnrýni.
 • Breytingin nú er einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og einfalda leyfisveitingar vegna byggingaframkvæmda. Markmiðið er að stytta verulega byggingartíma og með því sporna gegn óhóflegum verðsveiflum á húsnæðismarkaði.


Ný reglugerð hefur tekið gildi sem ætlað er að straumlínulaga leyfisveitingaferlið við húsbyggingar. Reglugerðin kveður á um upptöku nýs kerfis við flokkun mannvirkja, sem hafa mun bein áhrif á eftirlit sveitarfélaga, meðferð umsókna og útgáfu leyfa vegna allrar mannvirkjagerðar. Nýja flokkunarkerfið þýðir að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem mun draga verulega úr flækjustigi í slíkum framkvæmdum.

Breytingin er í takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála. Framundan er frekari endurskoðun m.a. með hliðsjón af tillögum OECD sem gagnrýndi fyrra kerfi leyfisveitinga í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði á síðasta ári.

Ákvæði sem varða palla, girðingar, skjólveggi og heita potta einfölduð
Markmið með setningu reglugerðarinnar er að draga úr kostnaði við framkvæmdir og gera eftirlit með mannvirkjagerð skilvirkara og einfaldara með því að flokka mannvirki, m.a. eftir stærð, flækjustigi hönnunar og samfélagslegu mikilvægi. Þannig verður umsóknarferli byggingarleyfis og eftirlit með mannvirkjagerð sniðið að hverjum flokki fyrir sig á þann hátt að umfangslítil mannvirkjagerð verður mun einfaldari í framkvæmd sem ætti að leiða til lægri byggingarkostnaðar.

Helstu breytingar sem verða samfara gildistöku reglugerðarinnar eru eftirfarandi:

 1. Mannvirki verða flokkuð eftir umfangi, eðli og samfélagslegu mikilvægi í þrjá umfangsflokka:

  1. Í umfangsflokk 1 fellur einföld mannvirkjagerð, s.s. bílskúrar og frístundahús, sem undanþegin verður byggingarleyfi en háð byggingarheimild, sem er nýtt hugtak í byggingarreglugerð. Í þessum flokki verður t.a.m. hvorki skylt að skila séruppdráttum við umsókn né er gerð krafa um ábyrgðaryfirlýsingu iðnmeistara.
  2. Í umfangsflokk 2 fellur mannvirkjagerð sem felur í sér flestar almennar framkvæmdir, s.s. einbýlishús, fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði og verður áfram háð byggingarleyfi.
  3. Í umfangsflokk 3 falla mjög flóknar eða umfangsmiklar framkvæmdir, sem hafa jafnvel mikið samfélagslegt mikilvægi, s.s. sjúkrahús, skólar og verslunarmiðstöðvar. Þessi mannvirkjagerð verður háð byggingarleyfi og er fyrirhugað að gera ítarlegri kröfur um eftirlit með hönnun þeirra en áður hefur verið.

 2. Gerður verður skýr greinarmunur á tilkynningaskyldri mannvirkjagerð og mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfi, en áður hafði verið fjallað um hvoru tveggja í sama ákvæði. Þá eru ákvæði sem varða palla, girðingar og skjólveggi einfölduð auk þess sem heitir pottar verða nú einungis tilkynningarskyldir, en voru áður byggingarleyfisskyldir.

Tillögurnar viðbrögð við skýrslu OECD um byggingariðnaðinn á Íslandi

Tillögurnar um flokkun mannvirkja voru unnar af starfshópi skipuðum af félagsmálaráðherra. Við gerð tillagna hópsins var litið til annarra Norðurlanda og var niðurstaðan sú að flokka skyldi mannvirkjagerð í þrjá svokallaða umfangsflokka. Hafði starfshópurinn að leiðarljósi það markmið að gera umsóknarferlið einfaldara og eftirlit hnitmiðaðra. Starfshópurinn horfði einnig til skýrslu OECD um samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar, þar sem lagt var til að markmiðsnálgun yrði beitt við setningu reglna í byggingariðnaði. Þessar breytingar koma auk þess í kjölfar tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra:

„Ég tel þetta vera mikilvægt skref á þeirri leið sem við höfum markað um að einfalda verulega alla stjórnsýslu og leyfisveitingar. Það hefur verið kallað eftir því lengi að minnka óþarfa flækjustig í einföldum framkvæmdum. Við þurfum að nýta skynsamlega þá fjármuni sem við leggjum í eftirlit með mannvirkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa einfalda skjólveggi eða girðingar. Ég tel að með sameiningu stjórnsýslu húsnæðis-, skipulags- og byggingarmála í einu ráðuneyti, sem nú er að verða að veruleika, verði hægt að stíga fleiri skref til að einfalda leyfisveitingar, auka stafræna upplýsingagjöf og þannig lækka húsnæðisverð, sem skiptir höfuðmáli fyrir almenning.“

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Mánudaga til fimmtudag: 09:00 - 16:00
Föstudaga frá kl: 09:00 - 14:00

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480