25
nóv.

Fjöldi ungs fólks í foreldrahúsum stóraukist

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn á árinu, eins og fjallað var ítarlega um í skýrslu hagdeildar HMS um stöðu og þróun á húsnæðismarkaði 2020. Þar má helst nefna mikla lækkun vaxta sem hafa valdið því að mun fleiri hafa séð sér fært að kaupa fasteign. Því hefur verið mikið líf á fasteignamarkaði frá upphafi sumars eftir afléttingu fyrra samkomubanns . Leigumarkaðurinn hefur ekki farið varhluta af þessari þróun og í nýlegri leigumarkaðskönnun HMS eru skýr merki þess að leigjendum fari fækkandi.[1] Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur löngum þótt óstöðugur og því er ekki hátt hlutfall landsmanna sem kýs að vera á leigumarkaði hafi þeir val um annað.

Aðstæður til húsnæðiskaupa hafa aldrei verið hagstæðari og því ekki að undra að leigjendur séu í auknum mæli að kaupa sér eigið húsnæði og er það líkleg ástæða þess að leigjendum sé að fækka. Hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði hefur ekki verið viðlíka lágt síðan í kringum hrun þegar það mældist 12% í lok árs 2008. Síðan þá hefur þetta hlutfall verið að sveiflast í kringum 14-18% og verið að meðaltali um 16%. Frá miðju ári 2019 hefur hlutfall leigjenda verið á niðurleið og farið úr því að vera 18% í júlí 2019 og niður í 13% í júlí 2020. Á svipuðum tíma byrjuðu stýrivextir Seðlabanka Íslands að lækka og því líklegt að það megi tengja þessa fækkun leigjenda við vaxtalækkanir og hagstæðari aðstæður til húsnæðiskaupa. Samkvæmt nýjustu leigukönnun HMS þá voru níu af hverjum tíu sem vildu heldur búa í eigin húsnæði en leigja og því ljóst að meirihluti leigjenda fer af leigumarkaði um leið og færi gefst.

Heimsfaraldurinn hefur að mörgu leyti haft jákvæð áhrif á þá sem eru á leigumarkaði. Framboð á leiguhúsnæði hefur aukist, leiguverð hefur lækkað og fleiri sjá fram á að geta keypt eigið húsnæði. Samkvæmt könnun HMS voru ekki nema 14% aðspurðra sem sögðu að Covid hefði haft neikvæð áhrif á stöðu sína á leigumarkaði. Hins vegar er einn hópur á leigumarkaði sem faraldurinn virðist hafa komið illa niður á en það er yngsti aldurshópurinn 18-24 ára, þar hefur hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum stóraukist á árinu. Í lok seinasta árs þá var hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum í þessum aldursflokki um 42% en hefur aukist í hverri könnun síðan þá og mældist seinast í ágúst 70%. Því er um gríðarlega aukningu að ræða á stuttum tíma eins og myndin hér að neðan ber með sér og ljóst að heimsfaraldur spilar þar stórt hlutverk. Mikill samdráttur hefur verið í ferðaþjónustu og flestum þjónustustörfum sem eru algeng störf sem fólk á þessum aldri sinnir. Atvinnuleysi meðal ungs fólks hefur meira en tvöfaldast síðastliðið ár og hefur fjöldi starfandi dregist saman um 14,5% á sama tíma. Því eru sterkar vísbendingar um að Covid-faraldur sé að koma einna verst niður á unga fólkinu og að það sé fast í foreldrahúsum og sé hvorki að leita inn á leigumarkað né í eigið húsnæði um þessar mundir.

 

 

[1] Skoðanakönnun meðal leigjenda framkvæmd af Zenter fyrir HMS á tímabilinu 7. júlí til 25. september 2020.

 

 

 

 

 

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Mánudaga til fimmtudag: 09:00 - 16:00
Föstudaga frá kl: 09:00 - 14:00

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480