04
des.

Fjöldi kaupsamninga líklega náð hámarki í september

Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá þá virðist toppnum á fasteignaviðskiptum hafa verið náð í september. Aldrei hafa áður verið gefnir út jafn margir kaupsamningar í einum mánuði, eða eins langt og gögn ná til eða ársins 2002 og ólíklegt að annar eins fjöldi hafi sést fyrir þann tíma.

Skammtímavísir hagdeildar HMS, þar sem mælt er hversu margar íbúðir eru teknar úr sölu á hverjum tíma af fasteignir.is, hafði gefið til kynna að hápunkti fasteignaviðskipta á árinu hefði verið náð í september og staðfesta tölur Þjóðskrár það. Mælikvarðinn hefur haft mjög mikla fylgni við útgefna kaupsamninga og gefur upplýsingar um virkni fasteignamarkaðar á þeim tíma sem viðskipti eru að fara fram og mun fyrr en tölur um fjölda kaupsamninga koma fram.

Tölur fyrir október gefa til kynna að enn þá sé mikið líf á markaðnum en að hann sé aðeins farin að róast og var fjöldi íbúða tekin úr birtingu aðeins minni en í september eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Nóvember virðist hafa verið aðeins umsvifameiri en október á höfuðborgarsvæðinu en nær þó ekki sömu hæðum og september. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins virðist fjöldi kaupsamninga ætla að slá met í nóvember á meðan fjöldinn hefur dregist verulega saman annarsstaðar á landsbyggðinni.  

Það er ljóst að mörg met verða slegin á fasteignamarkaði í ár. Auk þess sem kaupsamningar hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði en í september sl. var veltan einnig meiri en hún hefur áður verið. Veltan í september, eða heildarupphæð útgefinni kaupsamninga, var 76,3 milljarðar en þar áður hafði mesta veltan í einum mánuði verið 70,6 milljarðar í júlí 2007 (á verðlagi 2020 m.v. vísitölu neysluverðs).

Eins og margoft hefur verið komið inn á þá má líklega rekja þessi miklu umsvif á fasteignamarkaði til þess að vextir af íbúðalánum eru hagstæðir. Stýrivextir Seðlabankans eru hér í sögulegu lágmarki og voru komnir niður í 1% í vor. Seðlabankinn ákvað þann 18. nóvember síðastliðin að lækka vexti í 0,75% í ljósi versnandi efnahagshorfa. Því verður áhugavert að fylgjast með framvindu á fasteignamarkaði og hvort að vaxtalækkunin skili sér í lægri vöxtum á íbúðalánum og komi til með að örva eftirspurnina enn frekar.

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Alla virka daga frá kl. 09:00 – 15:30

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480