Rafbílar

Rafbílar

Rafbílar

Rafbílar

Hleðslu­að­ferð­ir

Hleðslu­að­ferð­ir

Hleðsla rafbíla hefur í för með sér töluverða straumnotkun sem af getur stafað hætta sé ekki rétt að málum staðið. Til að tryggja öryggi hafa verið settar sérstakar reglur um raflagnir á stöðum þar sem hleðsla rafbíla fer fram, sem og um búnað sem nota skal í þessu skyni. Þessar reglur ásamt árvekni og réttri umgengni notenda við búnaðinn tryggir öryggi við hleðslu rafbíla eins og frekast er unnt.

HMS mælir eindregið með að við heimahleðslu rafbíla sé notuð hleðsluaðferð 3, þar sem sérhæfður búnaður tryggir að rafbíllinn sé tengdur raflögninni á áreiðanlegan og öruggan hátt.

Hleðsluaðferð 1

Til tengingar rafknúins farartækis við raflögn eru notaðir staðlaðir allt að 16A jarðtengdir tenglar, t.d. tenglar til heimilisnota.

Þessi aðferð getur hentað við hleðslu lítilla rafknúinna farartækja, s.s. reiðhjóla með hjálparvél og léttra bifhjóla.

Hleðsluaðferð 2

Til tengingar rafknúins farartækis við raflögn eru notaðir staðlaðir allt að 32A jarðtengdir tenglar. Á milli farartækisins og tengikvíslarinnar (klóarinnar) er komið fyrir sérstökum stjórn- og öryggisbúnaði til að tryggja öryggi fólks, t.d. í stjórnboxi sem er á hleðslustrengnum. Gæta skal þess að þyngd stjórnboxins hangi ekki í tenglinum, það getur haft í för með sér ofhitnun og bruna í honum.

Þessi aðferð getur hentað við hleðslu rafbíla, en huga þarf að því að hefðbundnir 16A tenglar til heimilisnota henta ekki til hleðslu rafbíla nema hleðslustraumurinn sé takmarkaður verulega, við 10A að hámarki.

Hleðsluaðferð 3

Til tengingar rafknúins farartækis við raflögn er notaður sérhæfður búnaður til hleðslu rafknúinna farartækja, sem fasttengdur er raflögn. Hinn sérhæfði búnaður tryggir að rafbíllinn sé tengdur raflögninni á áreiðanlegan og öruggan hátt og aðlagar hleðslustraum þeirri raflögn sem tengst er, t.d. 16A eða 32A. Notaður er tengibúnaður, t.d. klær og tenglar, sem sérstaklega er gerður til hleðslu rafbíla.

Þessi aðferð hentar vel til hleðslu rafbíla og er sérstaklega mælt með að hún sé notuð.

Hleðsluaðferð 4

Til tengingar rafknúins farartækis við raflögn er notaður sérhæfður búnaður til hleðslu rafknúinna farartækja. Hinn sérhæfði búnaður tryggir að rafbíllinn sé tengdur raflögninni á áreiðanlegan og öruggan hátt. Notaður er tengibúnaður til tengingar hleðslustrengs við rafbíl sem sérstaklega er gerður til hleðslu rafbíla.

Þessi aðferð er ætluð til hraðhleðslu rafknúinna farartækja á sérstökum þjónustustöðvum.