Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Mínar síður

Tékklisti fyrir heimahleðslustöðvar og hleðslustrengi:

Afl stöðvar 
Hleðslugeta bíla er mjög mismunandi, þ.e. hversu mikið afl bíllinn getur notað til að hlaða rafhlöðuna. Nýlegir rafbílar geta sumir hlaðið með 22kW (3 fasar, 32A, 400V) en aðrir aðeins með 7,4kW (1 fasi, 32A, 230V). Tengiltvinnbílar geta margir hverjir hlaðið með enn minna afli, t.d. 3,7kW.

 

Sameiginleg notkun 
Þegar margar stöðvar eru á sama rafkerfi, t.d. í fjölbýlishúsi, er mikilvægt að stöðvarnar geti dreift afli sín á milli, til að hámarka getu kerfisins. Þá þurfa að þær að vera með samskiptamöguleika, í gegnum netið eða á annan hátt, og vera snjallstöðvar.  

 

Snjallstöðvar 
Snjallstöðvar hafa þann möguleika að hægt er að stýra hleðslunni t.d. hvenær dagsins hlaðið er og hægt er að fylgjast með notkun þeirra. Æskilegt getur verið að geta takmarkað notkun á stöðvum sem eru á almenningssvæðum og utanhúss.

 

Lengd hleðslustrengs 
Hleðslutengi eru á mismunandi stöðum á mismunandi gerðum bíla. Sumar gerðir bíla eru með hleðslutengið fyrir miðju að framan á meðan aðrar eru með það á öðru afturbrettinu. Í sum bílastæði er erfitt að bakka (t.d. skáskotin stæði) og sum eru samhliða götu. Staðsetning hleðslustöðvar við stæði, m.v. staðsetningu hleðslutengis á bíl, skiptir því máli varðandi nauðsynlega lengd strengs. Einnig þarf að hafa í huga notkun hleðslustrengs á almennum þjónustustöðvum. Lengd hleðslustrengja er almennt á bilinu 2-10m, best er að hafa þá ekki mikið lengri en nauðsynlegt er. Hleðslustrengir skulu hæfa notkun og aðstæðum á hleðslustað, þá má ekki framlengja, t.d. með fjöltengi eða framlengingarsnúru, vegna hættu á hnjaski og ofhitnun. Sama á við um notkun hverskonar „millistykkja“. 

 Uppsetning á hleðslustöð
Eingöngu löggiltir rafverktakar mega sjá um uppsetningu á hleðslustöðvum, lagnir að þeim og aðra nauðsynlega raflagnavinnu, s.s. í rafmagnstöflu viðkomandi byggingar. Rafbíll í hleðslu tekur mikinn straum og því ákaflega mikilvægt að rafmagsöryggi sé tryggt.  
Í einhverjum tilvikum gæti þurft að setja upp sérstaka rafmagnstöflu vegna hleðslu rafbíla. Lista yfir löggilta rafverktaka á nálgast á vef HMS.

 

Öryggi - varbúnaður 
Sérhver tengipunktur (þar sem rafbíll tengist raflögn) skal varinn með yfirstraumsvarnarbúnaði (yfirálags- og skammhlaupsvörn) og bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa), sem aðeins verja þennan tiltekna tengipunkt. Bilunarstraumsrofar ættu að vera af gerð B, en einnig má nota bilunarstraumsrofa af gerð A sé tryggt að DC-bilunarstraumur verði að hámarki 6mA, eða að settur sé upp annar búnaður til útleysingar fari hann yfir 6mA. Hægt er að fá hleðslustöðvar með öllum nauðsynlegum varbúnaði í og sé það gert þarf ekki að koma þessum tiltekna búnaði fyrir annarsstaðar, t.d. í rafmagnstöflu viðkomandi byggingar.