Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Byggingarvörur
Markaðseftirlit HMS
Markaðseftirlit HMS
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með því að byggingarvara á markaði uppfylli lög og reglugerðir. Stofnunin fylgist með byggingarvöru á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsingar um slíka vöru og tekur við ábendingum þess efnis frá byggingarfulltrúum, hönnuðum, byggingarstjórum, iðnmeisturum, neytendum og öðrum aðilum.
Eftirlit með markaðssetningu byggingarvara er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Eftirlit stofnunarinnar á þessu sviði felst í því að kanna hvort innflytjendur, dreifendur og framleiðendur byggingarvöru starfi í samræmi við ákvæði laga um byggingarvörur nr. 114/2014.
Varðandi byggingarvörur sem falla undir kröfu um CE merkingu er kannað hvort varan sé rétt CE-merkt og hvort henni fylgi viðeigandi yfirlýsing um nothæfi.
Sé vara þess eðlis að krafist sé tilkynnts aðila vegna CE-merkingar hennar, s.s. vegna prófana eða úttektar/eftirlits með gæðakerfi, gerir markaðseftirlitið kröfu um að ábyrgðaraðili á markaðssetningu vöru geti afhent staðfestingu/vottorð tilkynnta aðilans um eftirlitið/prófunina eða vísað til heimasíðu tilkynnta aðilans þar sem slík staðfesting er birt.
Markaðseftirlitið getur verið mun ítarlegra en að framan greinir því heimilt er að kanna hvort réttri aðferðarfræði sé beitt við CE-merkingu vöru. Við markaðseftirlit má einnig krefjast sérstakrar prófunar á vöru liggi fyrir grunur um að vara uppfylli ekki kröfur.
Varðandi byggingarvörur sem falla ekki undir kröfuna um CE-merkingu er kannað hvort tilskilin gögn fylgi vöru, sbr. nánari ákvæði III. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014. Einnig er heimilt að krefjast sérstakrar prófunar á slíkum vörum liggi fyrir grunur um að vara uppfylli ekki kröfur.
Vakin er athygli á að markaðseftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar tekur eingöngu til þátta er varða byggingarvöruna sem slíka og þeirra gagna er eiga að veita upplýsingar um vöruna. Markaðseftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar tekur því ekki til þátta er varða samskipti seljanda og kaupanda, t.d. kvartana vegna aðfinnsluverðrar þjónustu þess er markaðssetur vöru.
Sjá nánar lög um byggingarvörur nr. 114/2014.
Reglur um markaðseftirlit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru í IV. kafla laga um byggingarvörur nr. 114/2014 og VIII. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011 um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara, sbr. lög um byggingarvörur nr. 114/2014.
Um framkvæmd markaðseftirlits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gilda einnig eftirfarandi verklagsreglur:
5.001 Markaðseftirlit með byggingarvörum og vörum sem hafa áhrif á brunaöryggi (pdf)
Markaðseftirlit af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er framkvæmt á eftirfarandi hátt:
Árlega er gerð áætlun um skoðun ákveðinna tegunda byggingarvöru. Almennt er áætlunin gerð fyrri hluta árs og stefnt að því að skoðun fari fram um mitt sama ár. Skoðanir vegna markaðskannana af þessum toga eru unnar af óháðum faggiltum skoðunarstofum.
Brugðist er við rökstuddum ábendingum neytenda, fagaðila eða byggingarfulltrúa um ófullnægjandi byggingarvörur, tilkynningum um vörur sem ekki eru CE-merktar og ábendingum vegna vöru sem ber ekki þá sérstöku vottun/umsögn sem áskilin er. Skoðanir af þessum toga gagnvart einstökum framleiðanda eru yfirleitt unnar þannig að stofnunin hefur samband við viðkomandi seljanda og kannar réttmæti máls. Ef tekin er ákvörðun um frekari skoðanir í framhaldi af slíkri könnun, er sú skoðun ýmist unnin af sérfræðingum HMS eða faggiltri skoðunarstofu.
Stofnunin tekur þátt í sameiginlegu evrópsku átaki sem fram fer á vegum Samtaka evrópskra markaðseftirlitsstofnana, þar sem ástand tiltekinnar byggingarvöru er kannað samtímis á öllum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Skoðanir vegna markaðskannana af þessum toga eru unnar af óháðum faggiltum skoðunarstofum.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun setur saman skoðunarhandbækur til leiðbeiningar fyrir þá sem framkvæma eftirlit með byggingarvörum í umboði stofnunarinnar. Í skoðunarhandbókum koma fram skoðunaratriði sem eiga við um þá vörutegund sem fjallað er um og tilgreindir þeir þættir sem eru til skoðunar, aðferðir við mat þeirra ásamt því að tilgreina dæmingar hvers einstaks skoðaðs atriðis.
Bækurnar skulu notaðar við markaðseftirlit með viðkomandi vörum. Aðalmarkmiðið með skoðunarhandbókunum er að tryggja einsleitni og samræmi í starfi einstakra skoðunarmanna / eftirlitsmanna.
Niðurstöður nýjustu markaðskannana sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur annast má sjá hér:
Um birtingu niðurstaðna markaðskönnunar gildir eftirfarandi verklagsregla: