Dagur reykskynjarans
HMS og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna taka höndum saman þann 1. desember ár hvert og ýta úr vör árlegu forvarnarátaki í tilefni að degi reykskynjarans. Að þessu sinni hefur verið unnið viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega þegar eldsvoði kom upp í íbúð í Mávahlíð árið 2019 og deilir hún lífsreynslu sinni með okkur til að efla umræðuna á sviði forvarna. Þá er í viðtalinu einnig rætt við slökkviliðsmennina sem unnu á vettvangi brunans.
Viðtal við Sólrúnu Öldu
Reykskynjarar
Reykskynjari er eitt af mikilvægasta öryggistæki heimilisins sem hefur bjargað ófáum mannslífum. Um er að ræða ódýr öryggistæki sem eiga að vera á hverju heimili og mælst er til þess að reykskynjarar séu í öllum rýmum og herbergjum heimila. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. Marga eldsvoða er hægt að koma í veg fyrir með réttum og rétt staðsettum reykskynjurum. Mikilvægt er að skipta um rafhlöðu einu sinni á ári, en líftími reykskynjara er að hámarki 10 ár og nauðsynlegt að prófa hann fjórum sinnum á ári.
Reykskynjarar ættu að:
- Vera staðsettir á öllum hæðum heimilisins
- Vera til staðar í öllum svefnherbergjum heimilisins
- Vera alls staðar þar sem raftæki eru
- Vera prófaðir reglulega, helst mánaðarlega (bíííb)
- Hafa rafhlöður í lagi
- Vera yngri en tíu ára