Umsókn um styrk úr Aski- mannvirkjarannsóknarsjóði

Við viljum þakka umsækjendum fyrir fjölbreyttar og spennandi umsóknir sem bárust í sjóðinn í fyrstu úthlutun. Fjörutíu umsóknir bárust og var sótt um tæplega 452 milljónir. Fagráð hefur lokið vinnu sinni og sendi HMS ráðherra tillögu þess að úthlutun þann 26. janúar s.l. Innviðaráðherra hefur sent umsækjendum ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli tillagnanna.

Í framhaldinu mun HMS hafa samband við þau sem fá vilyrði fyrir styrk skv. ákvörðun ráðherra, til að ganga frá samningi um hverja og eina styrkveitingu, fara yfir verkáætlanir o.þ.h. 

Við viljum senda umsækjendum bestu þakkir fyrir áhugann og þeirra mikilvæga framlag til nýsköpunar og rannsókna í byggingariðnaði. Um leið vekjum við athygli á að ráðgert er að auglýsa næstu úthlutun úr Aski í september n.k.

Við úthlutun sjóðsins fyrir árið 2021 er lögð áhersla á: 

  • Raka- og mygluskemmdir: Verkefni sem stuðla að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda og hvernig unnt sé að bregðast við þeim með árangursríkum hætti.
  • Byggingarefni: Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, á endingu þeirra og viðnámsþoli, á efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur. Einnig verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins.
  • Orkunýting og losun gróðurhúsalofttegunda: Verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda á líftíma mannvirkja.
  • Tækninýjungar í mannvirkjagerð sem auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum: Þróun tæknilegra lausna sem hafa einkum það markmið að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, skilvirkni, samskipti og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.
  • Gæði og ólík form íbúðarhúsnæðis: Rannsóknir á gæðum íbúðahúsnæðis, hagkvæmni og hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja meðal annars með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.

 

Heildarfjárhæð til úthlutunar vegna umsókna á árinu 2021 er 95 milljónir kr. 

Hver einstakur styrkur sem sótt er um skal ekki nema hærri fjárhæð en 19 milljónir kr. og ekki meira en 70% kostnaðaráætlunar viðkomandi verkefnis.

Bæði lögráða einstaklingar og lögaðilar geta sótt um.

Fullunnar umsóknir með umbeðnum upplýsingum þurfa að hafa borist með rafrænum hætti í gegnum hms.is/askur á þar til gerðu umsóknarformi fyrir lok dags 9. desember 2021. Stefnt er að því að afgreiðslu umsókna verði lokið fyrir áramót, með fyrirvara um lengri afgreiðslufrest eftir umfangi og fjölda umsókna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir upplýsingar um starfsemi sjóðsins. Tekið er við fyrirspurnum í gegnum tölvupóst á netfangið askur@hms.is.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar vegna um­sókn­ar